17 Nóvember 2009 12:00

Lögreglan hefur eftirlit með dansleikjum framhaldsskólanna þegar þeir eru haldnir utan skólanna, s.s. á veitingahúsum borgarinnar. Varla þarf að taka fram að meðferð og neysla áfengis á þessum skemmtunum er með öllu óheimil. Að undanförnu hefur komið í ljós óhófleg ölvun þátttakenda á sumum dansleikjanna, jafnvel svo mikil að komið hefur verið upp sérstakri aðstöðu fyrir ofurölva nemendur (svonefnd dauðaherbergi eins og gárungarnir kalla það).

Lögreglan skráir allar athugasemdir við skóladansleiki, vekur athygli stjórnenda skólanna á þeim og leggur til úrbætur. Verði ekki úr bætt fær hlutaðeigandi skóli einungis leyfi til samkomuhalds með ströngum skilyrðum eða alls ekki. Það skiptir því miklu máli fyrir sérhvern framhaldsskóla að samkomuhald hans geti gengið fram þannig að til fyrirmyndar megi teljast.