7 Febrúar 2011 12:00

Fyrir skömmu gerði Umferðarstofa könnun á notkun stefnuljósa í tveimur hringtorgum á höfuðborgarsvæðinu, hringtorgi við Ánanaust/Mýrargötu/Fiskislóð/Grandagarð og á Vesturlandsvegi við Hafravatnsveg. Kom í ljós að mikið vantar á að þetta mikilvæga öryggis- og upplýsingatæki væri notað með fullnægjandi hætti. Í þessum tveimur hringtorgum var fylgst með 878 bílum. Af þeim gáfu 400 ökumenn stefnuljós (45,6%) á sama tíma og 478 bílar gáfu ekki stefnuljós (54,4%).

Það er athyglisvert að í viðhorfskönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Umferðarstofu í nóvember kom í ljós að 66,5% létu skort á notkun stefnuljósa í umferðinni fara í taugarnar á sér. Það er því ljóst að meðal ökumanna sjálfra er sterk krafa um að flæði umferðar sem og tillitssemi sé bætti með því að stefnuljós séu notuð. Af þessum athugunum má þó ljóst vera að margir þeirra sem láta skort á notkun stefnuljósa fara í taugarnar á sér gerast sjálfir sekir um að nota þau ekki.

Nú í febrúarmánuði hyggst lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leggja sérstaka áherslu á eftirlit með notkun stefnuljósa. Á morgun, þriðjudaginn 8. febrúar, frá kl. 13-15 mun hún fylgjast sérstaklega með stefnuljósanotkun ökumanna sem um hringtorgið við Ánanaust, Mýrargötu, Fiskislóð og Grandagarð fara. Miðvikudaginn 9. febrúar, á sama tíma, mun lögregla svo fylgjast með stefnuljósanotkun ökumanna á hringtorginu við Vesturlandsveg og Hafravatnsveg.

Markmið þessa er að vekja athygli á stefnuljósanotkun og hvetja ökumenn til að sýna öðrum vegfarendum þá tillitssemi í umferð sem þeim ber. Ökumenn sem ekki nota stefnuljós mega búast við sektum.