7 Apríl 2021 14:07

Í marsmánuði voru hundrað og fimmtíu ökumenn stöðvaðir á Austurlandi vegna of hraðs aksturs, margir þeirra innanbæjar. Tvö hundruð umferðarlagabrot voru skráð í mánuðinum.

Lögregla mun áfram fylgjast með hraða ökutækja bæði innanbæjar og utan með hækkandi sól. Sérstakt eftirlit verður á Háreksstaðaleið ofan Vopnafjarðar og á suðurfjörðum við Djúpavog þar sem mælingar á mælistöðvum Vegagerðar frá síðasta sumri sýndu að hraðakstur var nokkur.

Lögregla hvetur ökumenn til að gæta vel að hraða ökutækja sinna og öryggisbúnaði. Skráð umferðarslys eru fimm frá áramótum sem er svipaður fjöldi og árin 2019 og 2020.

Vinnum þetta saman, förum varlega, gætum að hraðanum og gerum þannig okkar til að koma í veg fyrir umferðarslys og -óhöpp.