16 Júlí 2010 12:00
Sérsveit ríkislögreglustjóra í samstarfi við lögreglustjórann á Suðurnesjum stendur fyrir eftirlit með utanvegaakstri á Reykjanesi nú í sumar. Settar hafa verið upp skilmerkilegar merkingar við enda Vigdísarvallavegar 428 (Djúpavatnsleið) við Krýsuvíkurveg 42 og Suðurstrandarveg 427 þar sem ökumönnum er bent á bann við akstri utan vega. Einnig hafa verið settar upp lokanir á nokkrum stöðum við Vigdísarvallaveg þar sem ekið hefur verið utan vega. Í einum af eftirlitsferðunum voru höfð afskipti af ökumanni jeppabifreiðar þar sem hann var að spóla í uppþornaðri tjörn í Breiðdal austan við Vatnsskarð. Hann á von á kæru fyrir brot á náttúruverndarlögum. Á nokkrum stöðum voru merki um utanvegaakstur meðal annars upp af Höskuldarvöllum en þar hafði verið ekið framhjá lokun.