17 Febrúar 2012 12:00
Sem fyrr fylgist lögreglan með dvöl ungmenna á veitinga- og skemmtistöðum og grípur inn í þegar ástæða er til. Vegna þessa er rétt að rifja upp lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald en í þeim segir m.a.: Á veitingastað sem leyfi hefur til áfengisveitinga er ungmennum yngri en 18 ára óheimil dvöl eftir kl. 22 á kvöldin og fram til lokunar staðarins nema í fylgd með foreldrum sínum, öðrum forráðamönnum, ættingjum eða maka, 18 ára eða eldri. (Almenn ákvæði um veitingastaði 5. gr.) Lögreglan fylgist með að þetta ákvæði, sem og önnur séu virt.
Reynslan sýnir að full þörf er á eftirliti af þessu tagi en eftirlit með veitinga- og skemmtistöðum felst líka í því að stöðva sölu áfengis þegar komið er fram yfir leyfðan afgreiðlutíma og sömuleiðis að koma í veg fyrir að ungmennum undir 20 ára sé veitt áfengi en þess eru því miður dæmi. Einnig ber það við að gestir á veitinga- og/eða skemmtistað eru of margir miðað við þá heimild sem er til staðar. Þótt hér sé ekki allt upptalið má líka nefna að lögreglan kannar reglulega hvort starfandi dyraverðir á veitinga- og skemmtistöðum séu ekki örugglega með heimild lögreglustjóra til starfans en hinir sömu þurfa að framvísa sérstöku dyravarðaskírteini þegar eftir því er leitað.
Áfram verður fylgst með öllum áðurnefndum atriðum en um helgina mun lögreglan fylgjast sérstaklega með dvöl ungmenna á veitinga- og skemmtistöðum, líkt og áður hefur komið fram. Að síðustu hvetur lögreglan rekstraraðila til að fara að lögum því annars geta þeir búist við viðurlögum, t.d. sviptingu eða afturköllun rekstrarleyfis.