12 Ágúst 2002 12:00

Eftirlit var um verslunarmannahelgina af hálfu starfsmanna umferðardeildar ríkislögreglustjórans.  Eftirlitið var með hefðbundnu sniði eins og undanfarin ár.  Notaðar voru merktar og ómerktar lögreglubifreiðar sem voru útbúnar bæði með hefðbundnum radar og hraðamyndavélum. 

Nýtt eftirlitstæki var notað sem tekur upp á myndband þau umferðarlagabrot sem ökumaður er staðinn að.  Má í því sambandi nefna hraðakstur og framúrakstur.  Það er mat þeirra lögreglumanna sem með tækið unni að það harfi sannað gildi sitt.

Um verslunarmannahelgina voru 92 ökumenn kærðir fyrir umferðarlagabrot af hálfu starfsmanna embættisins á móti 84 málum árið 2001.  Hér er um smá fjölgun að ræða sem kemur hugsanlega vegna öflugra eftirlits á Suður- og Vesturlandsvegi út frá Reykjavík.

Vert er að koma því á framfæri að nú fara skólar landsins að byrja og ökumenn þurfa að vera vel vakandi gagnvart gangandi vegfarendum og þá sérstaklega þeim sem ungir eru að árum.