16 Maí 2003 12:00

Í gær, fimmtudaginn 15. maí, kom ný og glæsileg Norræna í sína fyrstu áætlunarferð til Íslands. Skipið lagðist að nýjum viðlegukanti og farþegar og bílar fóru um nýtt afgreiðsluhús. Með skipinu voru á þriðja hundrað farþegar.

Ríkislögreglustjórinn hyggst aðstoða lögreglustjórann á Seyðisfirði með því að senda lögreglumenn úr alþjóðadeild til Seyðisfjarðar við hverja skipskomu í sumar. Í gær voru tveir lögreglumenn úr alþjóðadeild félögum sínum eystra til aðstoðar og auk þess fór lögreglumaður í tæknirannsóknarstofu ríkislögreglustjórans austur til að rifja upp vinnubrögð við töku fingrafara.

Við eftirlit með farþegum í gær fannst einn maður sem ekki gat framvísað vegabréfi eða öðru gildu ferðaskilríki. Skömmu eftir að lögreglan hóf afskipti af honum bar hann upp ósk um hæli á Íslandi. Fulltrúar ríkislögreglustjórans og lögreglustjórans á Seyðisfirði tóku skýrslu af manninum og síðan tók Rauði kross Íslands við honum á meðan Útlendingastofnun kannar mál hans og hælisumsókn.

Nokkuð bar á því síðasta sumar að útlendingar kæmust og reyndu að komast með ólöglegum hætti til landsins með Norrænu og þetta samstarf lögreglustjórans á Seyðisfirði og ríkislögreglustjórans miðar að því að sporna við slíku.