12 Ágúst 2002 12:00

Þann 8. ágúst s.l. fór lögreglan á Ísafirði með TF-Sif, þyrlu landhelgisgæslunnar í eftirlitsflug um friðlandið á Hornströndum.  Var farið um hádegið og lent aftur um kl.14:45.  Tilgangur ferðarinnar var m.a. að athuga hvort netalagnir væru skv. gildandi lögum og reglugerðum, hvort akstur vélknúinna ökutækja ætti sér stað án leyfis og eins almenn umgengni í friðlandinu.

Í ferðinni lagði lögreglan hald á eitt ólöglegt net, sem bæði hafði ólöglega möskvastærð, var ómerkt og ekki landfast.  Þá var fastur fugl í netinu sem losaður var úr prísundinni.

Gerðar voru athugasemdir við vélknúin ökutæki, en rétt er að benda á að akstur vélknúinna ökutækja er óheimill í friðlandinu.  Náttúruvernd ríkisins getur þó veitt leyfi fyrir því að sumardvalargestir í friðlandinu noti t.d. fjórhjól og dráttarvélar við sérstakar aðstæður, s.s. ef langt er að fara með vistir og fl.   Þessi ökutæki þurfa að sjálfsögðu að vera skráð og tryggð.

Lögreglan hyggst, eins og undanfarin sumur, fara í nokkrar eftirlitsferðir um friðlandið, auk þessarar sem nú var farin.

Á myndinni sést hvar lögreglan og einn úr áhöfn TF-SIF eru að losa friðaðan fugl sem sem flækst hafði í ólöglegu neti.