3 Júlí 2008 12:00

Um komandi helgi fer í hönd ein stærsta umferðarhelgi ársins. Margt kemur til, veðurspá er góð, hátíðarhöld víða um land og skólafólk með sína fyrstu útborgun í vasanum eftir að hafa unnið fyrsta mánuðinn í sumarvinnunni. Reynslan sýnir að um þessa helgi hópast ungmenni af stað og hefur það gerst að þau hafi slegið upp tjaldbúðum utan skipulagðra tjaldsvæða þar sem ekki er gæsla eða aðstaða af neinu tagi. Því vill lögreglan beina þvi til foreldra að fylgjast með og ferðast með börnum sínum og taka  þátt í skemmtuninni þannig að ekki sé um eftirlitslausar samkomur að ræða á stöðum sem ekki eru ætlaðir til slíks samkomuhalds.

Á Gaddstaðaflötum á bökkum Ytri – Rangár er gert ráð fyrir 12 til 15 þúsund manns á Landsmóti hestamanna. Þá má gera ráð fyrir að dvalið verði í flestum sumarhúsum Árnes- og Rangárvallasýslna sem og tjaldstæðum um allt Suðurland. Því er ekki ólíklegt að 30 til 50 þúsund manns verði á ferð um þessar tvær sýslur um helgina.

Til að bregðast við þessu hafa lögregluliðin á Hvolsvelli, á Selfossi og umferðardeild lögreglu höfuðborgarsvæðisins haft með sér samstarf og munu lögreglumenn á  12 til 15 merktum  tækjum lögreglu sinna eftirliti á vegum úti á leiðinni frá Reykjavík austur um Árnes-, Rangárvalla-, og Vestur Skaftafellssýslu og út frá Þjóðvegi 1. Þá mun þyrla landhelgisgæslunnar, skv. þjónustusamningi ríkislögreglustjóra við gæsluna, einnig fljúga með lögreglumenn frá Selfossi til umferðarefltirlits a.m.k. tvo daga og beinist það eftirlit að SV horninu öllu eftir því sem verkefni koma upp. Lögð verður áhersla á að ná til þeirra sem hraðast aka og erfitt reynist að ná til með öðrum hætti ásamt því að fylgjast sérstaklega með ástandi ökumanna m.t.t. ölvunar og / eða vímuefnanotkunar.

Þeim sem hyggja á ferðalög er bent á að gera nágrönnum sínum viðvart um það og fá þá til að hafa augun með eigum sínum en þekkt er að óprúttnir aðilar noti sér fjarveru fólks til þjófnaða.

Lögreglan skorar á vegfarendur að sýna aðgát í umferðinni, gæta þess að ökutæki og eftirvagnar séu í góðu lagi og að ökumenn séu það einnig. Mikill umferðarþungi kallar á þolinmæði og tillitssemi við samferðamenn okkar. Þannig stuðlum við að því í sameiningu að allir komist heilir á leiðarenda.