20 Janúar 2014 12:00

Lögregla fær reglulega ábendingar um að eineygð ökutæki í umferð séu of mörg. Til að átta sig á raunverulegu umfangi vandans hefur lögregla í tvígang, í janúar 2013 og 2014, gert talningar á fjölda eineygðra ökutækja á höfuðborgarsvæðinu. Talningarnar voru framkvæmdar með sambærilegum hætti bæði árin, fóru fram á sömu tólf stöðum í bæði skiptin, voru framkvæmdar á tveimur helgum og og stóð hver talning yfir í fimmtán mínútur.  Öll ökutæki voru talin sem ekið var um talningarstaðina og fjöldi eineygðra þar af.

Niðurstaða talingarinnar 2013 var sú að af 2962 ökutækjum sem talin voru reyndust 228 þeirra eineygð, eða 7,7%. Talningin á þessu ári gaf lítið eitt betri niðurstöðu, en þá voru 2854 ökutæki talin og af þeim voru 156 eineygð, eða 5,5%.

Ljóst virðist því að ástandið hefur heldur lagast milli ára. Það er svo á ábyrgð ökumanna sjálfra að sjá til þess að þeim hafi enn fækkað við næstu talningu og gera þannig sitt til að tryggja eigið öryggi og annarra.