15 Apríl 2003 12:00

Í tilefni þess að í dag, 15. apríl 2003, eru liðin 200 ár frá því að fyrstu einkennisklæddu lögregluþjónarnir hófu störf á Íslandi, opnaði dómsmálaráðherra sögusýningu lögreglunnar, sem standa mun yfir til 22. júní næstkomandi. Sýningin er að Skúlagötu 21, Reykjavík, og er aðgangur ókeypis.

Dómsmalaráðherra heiðraði jafnframt Sigurjón Sigurðsson, fyrrverandi lögreglustjóra í Reykjavík, fyrir áratuga farsæl störf hans að löggæslumálum.

Ávarp Haraldar Johannessen, ríkislögreglustjóra 15. april 2003:

Dómsmálaráðherra, ágætu gestir. Í dag þegar hin einkennisklædda lögregla á 200 ára afmæli þykir við hæfi að minnast þess með ýmsu móti. Löggæslan á Íslandi á sér þó mun lengri sögu þar sem sýslumenn hafa frá fornu fari haft með höndum lögreglustjórn og notið aðstoðar hreppstjóra til skamms tíma.  Í ársbyrjun 2002 skipaði ég nefnd til að vinna að undirbúningi afmælisins. Afmælisnefndina skipa; Guðmundur Guðjónsson yfirlögregluþjónn, formaður, og Sævar Þ. Jóhannesson lögreglufulltrúi, báðir hjá embætti ríkislögreglustjóra, Friðrik G. Gunnarsson aðstoðaryfirlögregluþjónn, Guðmundur Gígja lögreglufulltrúi, Jónas Magnússon rannsóknarlögreglumaður, fulltrúi Landssambands lögreglumanna, Óskar Bjartmarz lögreglumaður, fulltrúi Lögreglufélags Reykjavíkur, allir starfandi hjá lögreglustjóranum í Reykjavík.   Afmælisnefndin hefur unnið mikið starf og afrakstur þess er meðal annars minnispeningur, minjagripir, kynningarrit um sögu, þróun og uppbyggingu lögreglunnar á Íslandi og sú sögusýning sem hér verður opnuð almenningi. Kynningarritið vann nefndin í samvinnu við Ólaf K. Ólafsson sýslumann Snæfellinga fyrir hönd Sýslumannafélags Íslands sem fékk Sólborgu Unu Pálsdóttur sagfræðing til að semja kaflann um löggæslu fyrri alda, allt fram að tímum vaktaranna um miðja 18. öld. Þá ber að nefna tvo lögreglumenn í Reykjavík sem mikið hafa aðstoðað afmælisnefndina við undirbúning sögusýningarinnar, en það eru þeir Jón Arnar Guðmundsson og Karl Hjartarson. Umsjón með undirbúningi sýningarinnar hafði Sævar Þ. Jóhannesson. Sögusýningin er samstarfsverkefni dómsmálaráðuneytisins, ríkislögreglustjórans, lögreglustjórans í Reykjavík, Landssambands lögreglumanna og Lögreglufélags Reykjavíkur. Hún verður opnuð fyrir almenning 16. apríl og mun standa fram til 22. júní nk. Þá munu lögreglustjórar og lögreglumenn um land allt taka þátt í afmælishaldinu með ýmsu móti og ber í því sambandi að minna á sérstakan lögregludag, laugardaginn 26. apríl. Þann dag verður starfsemi lögreglunnar kynnt og lögreglustöðvar verða opnar almenningi, svo nokkuð sé nefnt. Um leið og ég óska lögreglustjórum og lögreglumönnum til hamingju með afmælið vil ég færa öllum þeim sem komið hafa að undirbúningi þess mínar bestu þakkir.  Ég vil að lokum afhenda dómsmálaráðherra eintak af kynningarritinu ÁGRIP AF SÖGU LÖGREGLUNNAR, og fyrsta heiðurspening ríkislögreglustjórans, sem er gull-minnispeningur afmælisins, en hann hefur verið gerður í 50 númeruðum eintökum. Dómsmálaráðherra mun nú flytja ávarp og opna sýninguna. Að því loknu er boðið upp á veitingar og skoðun á sýningunni.

Myndir frá opnun sögusýningar lögreglunnar

Sólveig Pétursdóttir, dómsmálaráðherra, ásamt lögreglumönnum í einkennisfatnaði lögreglunnar fyrr og nú

Dómsmálaráðherra heiðrar Sigurjón Sigurðsson, fyrrverandi lögreglustjóra í Reykjavík, fyrir störf að löggæslumálum

Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, afhendir dómsmálaráðherra eintak af nýútgefnu riti „Ágrip af sögu lögreglunnar“ og heiðurspening ríkislögreglustjórans sem er gullminnispeningur afmælisins

Guðmundur Guðjónsson, yfirlögregluþjónn og formaður afmælisnefndarinnar, sýnir dómsmálaráðherra gömul og söguleg vopn lögreglunnar

Jón Arnar Guðmundsson, rannsóknarlögreglumaður í Reykjavík, í eftirlíkingu af einkennisfatnaði lögregluþjóns 1803

Karl Hjartarson og Jón Arnar Guðmundsson, frá lögreglunni í Reykjavík, ásamt Sævari Þ. Jóhannessyni, frá ríkislögreglustjóranum, þeir unnu að undirbúningi sögusýningarinnar

Sigurjón Sigurðsson ræðir við Ingimund Einarsson, varalögreglustjóra í Reykjavík