14 Júlí 2012 12:00
Rokkhátíðin hefur að flestu leyti farið ágætlega fram. Talsverður erill var þó hjá lögreglu fram á morgun. Í nótt komu upp 12 minniháttar fíkniefnamál. Einn var fluttur á sjúkrahús vegna meiðsla sem hann hlaut við ferðalag sitt yfir skurð í nágrenni tjaldsvæðis.
Á síðasta sólarhring hafa 11 verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu. Sá sem hraðast ók var mældur á 135 km. mv. klst. í sunnan verðum Hólmahálsi á milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar. Sá á í vændum mjög háa fjársekt .
Lögreglan vill koma því á framfæri að malaryfirlagnir eru víða á veginum um Fagradal og á veginum yfir Oddskarð frá Eskifirði til Neskaupstaðar, og víðar í umdæminu. Það er gríðarlega mikilvægt að ökumenn virði hraðatakmarkanir, sem eru á vegarköflunum vegna mikillar slysahættu og tjóna á bifreiðum vegna steinkasts. Það er ljóst að ef ökutæki flýtur upp vegna of hraðs aksturs við þessar aðstæður skapast mikil hætta á slysum.
Í guðana bænum ágætu ökumenn fariði varlega. Komum heil heim með góðar minningar eftir frábæra helgi hvar svo sem við höfum verið.