17 Maí 2022 14:59

Lögregla fékk í gærmorgun tilkynningu um dauða álft á Upphéraðsvegi í Fellum við bæinn Kross innan við Fellabæ. Svo virtist sem skotgat væri á höfði hennar. Um atvikið var m.a. fjallað í fjölmiðlum.

Ökumaður gaf sig fram við lögreglu seinnipartinn í gær og kvaðst hafa ekið á álft á þessum slóðum í gærmorgun. Honum láðist hinsvegar að tilkynna atvikið á þeim tíma.

Vegna rannsóknar málsins og gruns um skotáverka var dýralæknir í gær fenginn til að meta hvað orðið hafi álftinni að aldurtila, en um friðaðan fugl er að ræða. Hans niðurstaða eftir skoðun var að áverkar væru þess eðlis að ekið hafi verið á hana.

Lögregla vill vegna þessa atviks árétta við ökumenn að þeir gæti að hraða ökutækja sinna og hugi þannig meðal annars að öryggi dýra við veg. Vísar hún þar meðal annars til fréttar er hún sendi á vef lögreglu þann 9. maí síðastliðinn um ástæður þess að dýr safnast gjarnan við vegi landsins á þessum árstíma. Þörf lesning og brýn með vísan til þess sem í gær gerðist. (Sjá hér: Ökum varlega – gætum að dýrum á og við veg | Lögreglan (logreglan.is) )