18 Október 2021 16:48

Fundur var haldinn í dag með Veðurstofu, almannavörnum og Múlaþingi vegna rigninga á Seyðisfirði er hófust í gærkvöldi. Úrkoma til morguns getur bætt 70 mm við þá 40 mm sem komnir eru í mæla frá því í gær. Hreyfing á speglum er óbreytt. Vatnsborð hefur hækkað í einni holu en ekki í öðrum.

Þar sem sólarhringsúrkoma fer ekki yfir þau mörk sem hlíðin hefur áður tekið við frá því skriður féllu í desember síðastliðnum þykir ekki ástæða til rýmingar.

Ef aukin hreyfing mælist á hryggnum milli skriðusársins frá í desember og Búðarár sem gefur til kynna að hann gæti farið af stað verður umferð neðan við skriðufarveginn, á Hafnargötu við Búðará, stöðvuð í öryggisskyni. GPS-mælar sýna enn sem komið er ekki marktæka hreyfingu.

Þó ekki sé talið líklegt að allur hryggurinn fari í einu þá munu, gefi mælar vísbendingar um slíkt, fimm efstu húsin við leiðigarðana rýmd að nýju. Útreikningar sýna engu að síður að allar líkur eru á að varnargarðar og safnþró leiði allt efnið til sjávar og án þess að valda tjóni á mannvirkjum.

Vel er fylgst með mælum í hlíðum ofan Seyðisfjarðar og viðeigandi ráðstafanir gerðar þyki ástæða til. Engar hreyfingar hafa mælst utan þeirrar er mælst hefur í hryggnum.

Áfram verði aðgæsla vegna umferðar á göngustígum meðfram Búðará og annars staðar þar sem varnargarðar beina skriðustraumum, svo sem á Hafnargötu við Búðará og utan við Múla. 

Enn er í gildi óvissustig almannavarna á Seyðisfirði.

Minnt er á Hjálparsíma Rauða krossins 1717.