8 Júlí 2016 09:13

Ástæða er til að vara vegfarendur sem leið eiga um Seyðisfjörð í Ísafjarðardjúpi við varhugaverðum aðstæðum sem þar eru og hafa verið undanfarin ár. Þarna nær slitlagið ekki yfir veginn þveran. Og má segja að það nái því ekki að vera tvíbreitt. Þeir sem vanir eru að aka þennan veg gæta flestir varúðar og víkja í útskotum sem þarna eru eða færa sig að hluta til út af slitlaginu þegar ökutækjum er mætt.

Fyrir ókunnuga eru þessar aðstæður framandi og sumir ökumenn halda sig á slitlaginu þó svo að ökutækjum sé mætt. Þá þarf ökumaður bifreiðar sem á móti kemur að fara langt út á vegkantinn.

Nú í vikunni skall hurð nærri hælum þegar hvítri sendibifreið var ekið greitt og hiklaust inn Seyðisfjörðinn og mætti húsbifreið. Ökumaður húsbifreiðarinnar hafði gætt að sér og farið vel út í vegkantinn til að mæta sendibifreiðinni. Sendibifreiðinni var hins vegar ekið á slitlaginu og það nærri húsbifreiðinni að hliðin straukst við hliðarspegil húsbifreiðarinnar. Afleiðingarnar voru þær að spegillinn brotnaði af og braut hliðarrúðuna. Glerbrot þyrluðust inn í húsbifreiðina og hlaut ökumaður hennar skurðsár á enni.

Ökumaður sendibifreiðarinnar stöðvaði ekki þrátt fyrir þetta sem er umhugsunarvert út af fyrir sig.

Þessar aðstæður, slitlag sem nær ekki yfir tvær akgreinar, er einnig að finna á vegaköflum í Hestfirði, Álftafirði og Þorskafirði

Seyðisfjörður, þröngur vegur. 2