16 Janúar 2007 12:00

Eins og flestum er kunnugt um hefur umferðin á höfuðborgarsvæðinu gengið hægt fyrir sig á álagstímum undanfarna daga. Færðinni er þar helst um að kenna en þó má líka fullyrða að hlutirnir gengu betur fyrir sig ef ökumenn sýndu þolinmæði og tillitssemi og færu í hvívetna eftir umferðarlögum. Í því sambandi er rétt að rifja upp hluta af 25. gr. umferðarlaga en þar segir m.a.:

Á vegamótum, þar sem umferð er stjórnað með umferðarljósum, má ökumaður eigi aka inn á vegamótin á grænu ljósi, ef honum má vera ljóst af aðstæðum í umferðinni, að hann muni eigi komast yfir vegamótin, áður en grænt ljós kviknar fyrir umferð úr þverstæðri átt.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið margar kvartanir vegna ökumanna sem virða þetta að vettugi. Vel má vera að hinir sömu þekki ekki þá reglu sem hér var sagt frá en sé hún virt mun umferðin ganga betur fyrir sig. Það er einmitt hagur okkar allra.