3 Júní 2008 12:00
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var slökkvilið og lögregla kölluð að einbýlishúsi við Brekkugötu á Þingeyri um kl.20:00 fimmtudaginn 29. maí sl. Þar varð eldur laus í mannlausu húsi, en íbúarnir voru fjarverandi þegar nágrannar urðu varir við að reyk lagði frá húsinu.
Liðsmenn Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar á Þingeyri komu fljótt á vettvang og tókst með snarræði að ráða niðurlögum eldsins. Eldur logaði á miðhæð hússins og hlutust töluverðar skemmdir af. Rannsóknardeild lögreglunnar á Vestfjörðum hefur lokið rannsókn á eldsupptökum og naut til þess aðstoðar fagmanns á sviði rafmagns. Eldsupptök eru rakin til rafmagns en talið er að eldur hafi kviknað í timburmillivegg þar sem rafmagnstengdur hitastillir var staðsettur.