25 Apríl 2023 10:41

Lögreglan á Suðurnesjum hefur til rannsóknar eldsvoða, þar sem mannslát varð í bátnum Grímsnesi GK555 sl. nótt.

Báturinn var við festar í Njarðvíkurhöfn þegar eldurinn kom upp, en tilkynning um eldinn barst  lögreglu frá Neyðarlínu laust eftir klukkan tvö í nótt. Karlmaður á fimmtugsaldri fannst meðvitundarlaus um borð. Báru endurlífgunartilraunir á vettvangi ekki árangur.

Annar skipverji var fluttur á bráðamóttökuna í Fossvogi og liggur nú á gjörgæslu. Aðrir skipverjar sem einnig höfðu verið um borð fengu aðhlynningu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja vegna mögulegrar reykeitrunar.

Rannsókn lögreglu er á frumstigi og mun tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu framkvæma vettvangsrannsókn þegar óhætt er að koma því við. Rannsóknarnefnd Samgönguslysa mun jafnframt taka málið til rannsóknar.

Brunavörnum Suðurnesja er þakkað fyrir björgunarstörf á vettvangi.

Lögreglan getur ekki veitt frekari upplýsingar að svo stöddu, en unnið er að upplýsa  aðstandendur mannsins um andlát hans.