3 Júlí 2014 12:00

Embætti ríkislögreglustjóra fagnar því að Kvenréttindafélag Íslands vekji athygli á stöðu kvenna innan lögreglunnar. Jafnframt vill embættið vekja athygli á því að nú fyrir stuttu samþykkti Alþingi lög nr. 51/2014 um breytingar á lögreglulögum nr. 90/1996, en með þeim breytingum færðist stöðuveitingarvaldið frá ráðherra og ríkislögreglustjóra til lögreglustjóranna. Í lögunum er að finna nýmæli þess efnis að ríkislögreglustjóri muni starfrækja hæfnisnefnd sem veitir lögreglustjórum ráðgefandi álit um hæfi umsækjenda við skipun í embætti lögreglumanna, en innanríkisráðherra vinnur nú að því að setja reglur um skipan og störf nefndarinnar.

Vegna fæðar kvenna í lögreglunni og hægum framgangi þeirra innan lögreglunnar þá hafði embætti ríkislögreglustjóra frumkvæði að því að vinna rannsókn á vinnumenningu lögreglunnar, í samvinnu við námsbraut í kynjafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, á vormánuðum 2013. Í verkefninu var m.a. leitast við að svara því hvers vegna konur eru svo fámennar í lögregluliði landsins. Rannsóknin er umfangsmikil greining á vinnuumhverfi lögreglu og veitti mikilvægar upplýsingar um líðan lögreglumanna í starfi. Embætti ríkislögreglustjóra hefur litið á rannsóknina sem verkfæri til þess að leita lausna á þeim vanda sem lögreglan stendur frammi fyrir, og til að vinna að því að byggja upp jákvætt og gott starfsumhverfi í lögreglu.

Í ljósi niðurstaðna könnunarinnar hefur embætti ríkislögreglustjóra og jafnréttisfulltrúi lögreglu unnið hörðum höndum að því vinna að því að bæta starfsskilyrði kvenna og karla innan lögreglunnar. Í janúar 2014 skipaði ríkislögreglustjóri starfshóp sem hafði það hlutverk að vinna tillögur að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvörðunum lögreglunnar. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar frá embætti ríkislögreglustjóra, Landssambandi lögreglumanna, Lögreglustjórafélagi Íslands, Lögregluskóla ríkisins og lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum þann 17. mars sl. Í samræmi við þær tillögur hefur embætti ríkislögreglustjóra ákveðið að gefa út handbók og halda námskeið fyrir lögreglustjóra, sem taka við nýjum lögregluembættum þann 1. janúar nk., um fagleg vinnubrögð og gagnsæi við skipanir, setningar og ráðningar með sérstakri áherslu á kynja- og jafnréttissjónarmið. Auk þess verður lögð áhersla á faglegt val og/eða ráðningar í stöður staðgengla, afleysingastöður og tímabundnar setningar. Að auki mun embætti ríkislögreglustjóra halda stjórnendanámskeið fyrir starfsfólk lögreglu. Á námskeiðinu verður lagt upp með að hlutur karla og kvenna á námskeiðinu sé sem jafnastur, meðal þeirra sem sækja námskeiðið og þeirra sem kenna á námskeiðinu.

Einelti, áreitni og önnur ótilhlýðileg háttsemi er litin alvarlegum augum innan lögreglunnar og hún ekki liðin. Embætti ríkislögreglustjóra vinnur nú að því að útbúa fræðsluefni um jafnrétti, siðferði, góð samskipti og jákvæðan starfsanda. Markmið efnisins er að brjóta niður neikvæðar staðalmyndir og fordóma, vinna gegn mismunun, kynferðislegri áreitni og einelti. Mikilvægt er að allir starfsmenn lögreglu, óháð starfsstigi og starftitli, hafi fengið fræðslu um jafnréttismál, siðferði, góð samskipti og jákvæðan starfsanda. Stefnt er að því í byrjun næsta árs að jafnréttisfulltrúi lögreglu heimsæki öll embætti lögreglunnar og haldi fræðslu í samvinnu við jafnréttisfulltrúa í hverju og einu embætti.

Ríkislögreglustjóri hefur sett á stofn fagráð lögreglu sem tekur til umfjöllunar mál er varða beina og óbeina mismunun, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti innan lögreglunnar. Það er mikilvægt að starfsfólk lögreglu hafi aðgang að aðilum sem eru óháðir lögreglunni, en ríkislögreglustjóri hefur skipað samkvæmt tilnefningu jafnréttisnefndar lögreglunnar Davíð Þór Björgvinsson, prófessor, sem jafnframt er formaður ráðsins, Láru V. Júlíusdóttur, hrl., Jón Friðrik Sigurðsson, prófessor, Önnu Kristínu Newton, sálfræðing og Finnborgu Salome Steinþórsdóttur, jafnréttisfulltrúa lögreglunnar til að taka sæti í fagráðinu. Hlutverk fagráðsins er m.a. að taka við, meta, koma í viðeigandi farveg og fylgja eftir tilkynningum sem ráðinu berast og tryggja að þær fái viðhlítandi málsmeðferð samkvæmt starfsreglum fagráðs og landslögum.

Jafnréttisnefnd lögreglunnar vinnur nú að því að endurskoða jafnréttis- og framkvæmdaráætlun lögreglunnar, en stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki í lok árs 2014. Við þá vinnu verður stuðst við tillögur ofangreinds starfshóps ríkislögreglustjóra. Embætti ríkislögreglustjóra bindur vonir við að í þeirri áætlun verði fleiri markvissar aðgerðir til þess að bæta stöðu kvenna og karla í lögreglunni, bæta vinnuumhverfi lögreglunnar og ekki síst til að auka gæði þjónustu lögreglu við borgarana.

Með fyrrnefndum lögum um breytingar á lögreglulögum hafa skapast mörg sóknarfæri fyrir aukið jafnréttisstarf innan lögreglunnar. Innanríkisráðherra vinnur nú að því að undirbúa stofnun nýrra lögregluembætta, en þann 1. janúar 2015 mun embættum lögreglu fækka úr 15 í níu. Þar hafa skapast tækifæri til þess að jafna hlut kvenna og karla sem fara með stjórn lögregluliða í hverju umdæmi, en í dag eru fjórar konur starfandi sem lögreglustjórar hér á landi. Að auki vinnur starfshópur innanríkisráðherra að því að endurskoða skipulag og starfsemi Lögregluskóla ríkisins, en hópurinn hefur það hlutverk að gera tillögu að framtíðarskipan lögreglumenntunar. Þar gefst tækifæri til þess að leggja ríkari áherslu á jafnréttismál bæði við inntöku nýnema og í menntun lögreglumanna. Með þessum lögum fá lögreglustjórar veitingarvald yfir öllum stöðuveitingum innan sinna embætta. Þessi aukna ábyrgð lögreglustjóranna ætti að vera þeim hvatning til þess að vinna að auknu jafnrétti innan sinna embætta, en með auknum fjölbreytileika og jafnrétti innan lögreglunnar búum við til faglegri og öflugri löggæslu í landinu.