17 Nóvember 2009 12:00

Árlegur fundur lögreglunnar og hreppsnefndar Kjósarhrepps var haldinn í Ásgarði í gær en fundinn sátu jafnframt nokkrir fulltrúar úr félagsmálanefnd hreppsins. Að vanda var farið yfir þróun brota í sveitarfélaginu sem er það fámennasta á höfuðborgarsvæðinu en íbúar þess voru 196 í árslok 2008. Þrátt fyrir fámennið er svæðið víðfemt og hefur líka ákveðna sérstöðu af þeim sökum. Eins og alltaf eru Kjósverjar höfðingjar heim að sækja en þeir buðu gestum upp á flatkökur með hangikjöti og brauð með reyktum laxi og svo var drukkið kaffi með því. Á tímabili leit reyndar út fyrir að lögreglustjóri og föruneyti hans kæmist ekki á fundinn því lögreglubíllinn þeirra bilaði á leiðinni. Var gripið til þess ráðs að fá annan bíl í staðinn og komst hópurinn á leiðarenda. Fundurinn hófst því nokkru á eftir áætlun en það kom ekki að sök enda eru Kjósverjar ekkert að æsa sig yfir smámunum.

Líkt og fyrri ár eru afbrot í Kjósarhreppi mjög fátíð og þau má telja á fingrum annarrar handar. Raunar hafði einn fundarmanna á orði að það væru engin vandamál í Kjósarhreppi og undir það má taka. Ólögleg meðferð skotvopna kom þó til umræðu en ekki verður samt séð að það sé sérstakt  áhyggjuefni á svæðinu. Helsta vandamálið virðist hinsvegar snúa að hraðakstri en bifhjólamenn eiga það til að fara heldur geyst um Kjósarhrepp á sumrin og við því hefur lögreglan brugðist. Það sem var fundarmönnum einna efst í huga snýr þó ekki beint að lögreglunni heldur forráðamönnum fjarskiptafyrirtækja. Kjósverjum þykir símasambandið í sveitinni ekki nógu gott og segja að ekki náist samband við gsm-síma á mörgum stöðum. Þessu vilja þeir koma í lag og benda á öryggissjónarmið hvað það varðar og undir það má taka.

Það var Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri á lögreglustöð 4, sem fór yfir tölfræðina með Kjósverjum en hana má nálgast í heild sinni með því að smella hér. Árni kynnti einnig til sögunnar niðurstöður úr könnun um reynslu íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Könnunin var framkvæmd í vor en hana má nálgast í heild sinni með því að smella hér. Aðstoðaryfirlögregluþjónninn og Stefán Eiríksson lögreglustjóri ræddu einnig um helstu breytingar sem hafa orðið hjá embættinu undanfarið og þær væntingar sem menn hafa, m.a. um aukna sýnilega löggæslu.

Fundarmenn voru 20 talsins en einn þeirra lét sér fátt um finnast þótt nokkrir einkennisklæddir lögreglumenn úr höfuðborginni væru í heimsókn. Þetta var hann Birgir Mikkael Jóhannesson, 9 mánaða snáði sem kom á fundinn með ömmu sinni, henni Guðnýju Ívarsdóttur í Flekkudal en þau má einmitt sjá saman á mynd hér efst á síðunni. Á fundum í haust og vetur hefur fólk á ýmsum aldri komið til fundar við lögregluna en Birgir er sá langyngsti! Kannski verður hann bara lögreglumaður síðar meir. Eins og áður kom fram var fundurinn haldinn í Ásgarði en þar var starfræktur skóli í eina tíð. Miklar endurbætur hafa farið fram í Ásgarði og húsið er orðið hið glæsilegasta en þar er hreppsskrifstofan nú til húsa.