23 Október 2021 11:19

Á fundi í morgun með Veðurstofu, almannavörnum og Múlaþingi vegna áframhaldandi skriðuhættu á Seyðisfirði kom fram að hreyfing heldur áfram í hryggnum við Búðará þó að hægt hafi á henni frá því í gær. Vatnshæð í borholum lækkar heldur.

Áréttað er að hryggurinn er sprunginn og margskiptur. Mestar líkur eru því á að hann fari niður í brotum og á mismunandi tímum. Útreikningar sýna að jafnvel þó hann fari allur í einu þá muni leiðigarðar halda og aur ekki ná að húsum næst þeim.

Íbúar eru sem fyrr hvattir til varkárni á göngustígum meðfram Búðará og annars staðar þar sem varnargarðar beina skriðustraumum. Þá eru allir þeir sem leið eiga um Hafnargögu við Búðará og utan við Múla beðnir um að sýna varkárni einnig.

Til að auka enn öryggi þeirra sem leið eiga um Hafnargötu við Búðará þegar skyggja tekur hefur verið ákveðið að lýsa upp hlíðina við Búðará. Þeirri framkvæmd ætti að vera lokið fljótlega.

Vel er fylgst með mælum í hlíðum ofan Seyðisfjarðar og viðeigandi ráðstafanir gerðar þyki ástæða til.

Enn er í gildi óvissustig almannavarna á Seyðisfirði.

Minnt er á Hjálparsíma Rauða krossins 1717.

Á vef Veðurstofu Íslands er tilkynningarborði sem uppfærður er daglega um Seyðisfjörð þar sem hægt er að fá ítarlegri upplýsingar um vöktun og fleira, skoða staðsetningu svæðisins er um ræðir og hreyfingar á speglum.