7 Október 2020 17:52

Aur skríður enn fram eftir að stór skriða féll í Hleiðargarðsfjalli ofan við bæinn Gilsá 2 í Eyjafirði í gær. Aur og grjót nær nú að Eyjafjarðarbraut vestari og er nú þegar farið að ganga yfir veginn. Hætta er á staðnum og hafa hús á svæðinu verið rýmd. Þá hefur verið ákveðið að loka Eyjafjarðarbraut vestari frá Sandhólum annars vegar og frá brúnni yfir Eyjafjarðará við Vatnsenda hins vegar.

Lögreglumenn frá lögreglunni á Norðurlandi eystra, ásamt sérsveit Ríkislögreglustjóra og sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands og frá Náttúrufræðistofnun hafa metið aðstæður í dag. Mikið vatnsrennsli hefur verið í skriðusárinu og er enn. Í gær var ákveðið að rýma og tryggja að enginn væri á bæjunum Gilsá 1, Gilsá 2 og sumarbústað við Gilsá 2. Stendur sú ákvörðun áfram. Ekki er útilokað að fleiri skriður geti fallið á svæðinu.