31 Ágúst 2006 12:00

Það er á ábyrgð foreldra og forráðamanna að tryggja öryggi barna sinna í bílum. Það merkir að viðeigandi öryggisbúnaður sé til staðar og að hann sé rétt notaður. Þetta er rifjað hér upp vegna alvarlegs atviks á dögunum. Þá stöðvaði lögreglan í Reykjavík karlmann á fertugsaldri sem var með tvö börn í bílnum. Annað sex ára en hitt nokkurra mánaða gamalt.

Yngra barnið var í bílstól sem var ekki tryggilega festur. Þá var beltið í bílstólnum ekki spennt. Sama átti við um eldra barnið. Það var ekki með bílbelti. Ekki þarf að spyrja að leikslokum ef þessi ökumaður hefði lent í árekstri.

Þá ber stundum við að lítil börn eru látin sitja í framsæti bifreiðar. Það er mikið hættuspil og má benda á margar rannsóknir því til stuðnings. T.d. má nefna að uppblásanlegur öryggispúði er nánast í öllum nýrri bifreiðum. Hann getur sprungið út af miklum krafti og lent á andliti barns. Af þeirri ástæðu einni eiga börn sem eru undir 150 sentímetrum á hæð og 40 kg að þyngd, ekki að vera í framsæti.