28 Júlí 2006 12:00

Lögreglan í Reykjavík fylgist nú grannt með ástandi ökutækja. Er einkum litið til þess hvort að ökumenn hafi farið með þau í lögbundna skoðun. Það á ekki síst við um ökutæki sem eiga að koma til endurskoðunar. Sé þeim ákvæðum ekki sinnt ber lögreglu að klippa skrásetningarnúmer af ökutækjum.

Ökutækjatrygging þarf einnig að vera til staðar. Sé svo ekki eru skrásetningarnúmer klippt af umsvifalaust. En það er fleira sem lögreglan fylgist gaumgæfilega með þessa dagana. Nú er einnig í gangi sérstakt eftirlit með hjólhýsum, fellihýsum og tjaldvögnum.

Slíkir eftirvagnar þurfa að uppfylla ákveðnar öryggiskröfur sem m.a. lúta að ljósum og speglum. Þá þarf öryggiskeðja að vera til staðar ef hemlar eru ekki fyrir hendi. Rétt er líka að ítreka að hámarkshraði er 80 km þegar ekið er með hjólhýsi, fellhýsi eða tjaldvagn.