16 Júní 2012 12:00

Þó nokkur erill var hjá lögreglunni hjá Akureyri en í bænum fara fram svokallaðir Bíladagar.

Tilkynnt var um slys á aksturssvæði Bílaklúbbs Akureyrar um hálf 10 leytið í gærkvöld.

Slysið átti sér stað í svokölluðu Drift-keppni, en bifreið lenti út úr brautinni og á varnargirðingu og á einum áhorfanda sem var fyrir utan girðinguna. Girðingin lenti síðan á tveimur öðrum áhorfendum sem slösuðust lítillega. Áhorfandinn sem fékk bifreiðina á sig var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild sjúkrahússins á Akureyri.  Ekki er talið að meiðsli hans séu alvarleg.

Þá var tilkynnt um innbrot í kaffihús í miðbænum. Þegar lögreglan kom á staðinn var einn aðili þar innandyra. Hann var handtekinn og gistir núfangageymslu.

10 voru kærðir fyrir of hraðan akstur, flestir voru teknir á hringveginum í Öxnadal á leiðinni til Akureyrar. Sá sem hraðast ók var á 173 km/klst hraða.

Þá var tilkynnt um 1 líkamsárás en þar var einn aðili fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið, með minniháttar meiðsli.

Lögreglan á Akureyri sinnti nokkrum útköllum vegna kvartana yfir hávaða, bæði hávaða frá samkvæmum í heimahúsum og svo hávaða frá bílaumferð ennokkuð mikið var um spyrnukeppnir á götum bæjarins. Mikið var um að menn voru að spóla á bifreiðum sínum á götum og bifreiðastæðum og hafði lögreglan afskipti af þó nokkuð mörgum ökumönnum vegna þessa.

Þá sinnti lögreglan mörgum öðrum smærri verkefnum.