3 Janúar 2017 09:23

Nokkur erill hefur verið hjá lögreglunni á Suðurnesjum á síðustu dögum vegna meints ölvunar- og fíkniefnaaksturs í umdæminu. Sem dæmi má nefna að lögreglumenn stöðvuðu erlendan ferðamann á bílaleigubíl vegna gruns um að hann væri ölvaður undir stýri. Þegar þeir voru að ræða við hann í lögreglubifreiðinni bar að annan ökumann sem ók aftan á kyrrstæðan bílaleigubílinn. Sá ökumaður var einnig grunaður um ölvunarakstur og voru báðir ökumennirnir handteknir og færðir á lögreglustöð.

Þriðji ökumaðurinn hlýddi ekki stöðvunarmerkjum lögreglu, sem varð að aka í veg fyrir bifreið hans og stöðva þannig aksturinn. Hann var grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur og var að auki sviptur ökuréttindum ævilangt.