5 Nóvember 2012 12:00

Fyrir helgina var haldinn íbúafundur í hátíðarsal Breiðholtsskóla með hverfaráði, fulltrúum skóla í hverfinu, fleiri lykilaðilum og lögreglu. Fundurinn hefur verið haldinn árlega frá árinu 2007 og var að þessu sinni opinn öllum. Mætingin var þó með slakara móti, en 21 gestur sótti fundinn. Kannski er það til marks um það hvað ástandið er gott í Breiðholti, en lögreglan færði einmitt viðstöddum góðar fréttir hvað þróun afbrota varðar. Áður en orðið var gefið lögreglu tók Óskar Dýrmundur Ólafsson, hverfisstjóri Breiðholts, til máls og bauð gesti velkomna. Síðan kynnti Stefán Eiríksson lögreglustjóri sína menn á fundinum, en sjö fulltrúar lögreglu sátu fundinn. Þá fjallaði Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri á lögreglustöð 3, um stöðu mála í Breiðholti út frá afbrotatölfræði lögreglu og árlegri viðhorfskönnun. Á eftir honum greindi Kristján Ólafur Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn frá stöðu umferðarmála í hverfinu.

Meðal þess sem má lesa út úr tölum lögreglu er að innbrotum í heimili í Breiðholti hefur fækkað á hverju ári frá 2009. Þegar árið 2011 er skoðað hefur innbrotum fækkað um 38% frá árinu 2007. Innbrotum hefur haldið áfram að fækka það sem af er árinu. Tíðni innbrota er þó lítillega yfir meðaltali á höfuðborgarsvæðinu. Ofbeldisbrotum hefur fækkað um 33% frá árinu 2007, eignaspjöllum um 28% og slysum á vegfarendum um 63%. Í könnun lögreglu kemur fram að hlutfall íbúa í Breiðholti sem telja sig örugga einir á gangi í sínu hverfi þegar myrkur er skollið á hækkar lítillega og var það þó hátt fyrir. Niðurstöðurnar eru í takt við afbrotatölur því samkvæmt þeim virðist sjaldan hafa verið eins öruggt að búa í Breiðholti.

Að loknum kynningunum var boðið upp á spurningar og sköpuðust ágætar umræður. Nokkrum gestum var ofarlega í huga að það virðist hafa fest nokkuð neikvæður stimpill á hverfinu í gegnum tíðina sem erfitt hefur reynst að hreinsa. Það virðist vera algengt að umfjöllum um Breiðholt, m.a. í fjölmiðlum, sé á neikvæðari nótum en gengur og gerist um önnur hverfi. Íbúum finnst tími til kominn að breyta þessu og kallað var eftir því að fjallað yrði með jákvæðari hætti um hverfið þannig að Breiðholti verði sköpuð betri og réttlátari ímynd. Undir þetta tóku fulltrúar lögreglu og bentu á að afbrotatölur sýna einmitt að ástandið í Breiðholti er ekki verra en meðaltali á höfuðborgarsvæðinu.

Gestir voru almennt ánægðir með þann árangur sem hefur náðst í að fækka brotum og þá ekki síst innbrotum. Talað var um að nágrannavarsla, sem er skipulögð í meira en 30 götum í hverfinu, hafi án efa haft sitt að segja í að fækka innbrotum. Hvatt var til þess að viðhalda því góða starfi sem hefur verið unnið þar og fjölga eftir megni götum sem halda úti nágrannavörslu. Þó er alltaf hætta á því að menn sofni á verðinum þegar ástandið er gott eins og nú er og því hvatti lögreglustjóri fólk til dáða.

Nokkrir gestir viðruðu áhyggjur sínar af tælingarmálum og nefndu dæmi um að börn hefðu fyllst ótta eftir að hafa talið ókunnuga vera að reyna að lokka sig upp í bíl. Stefán Eiríksson brýndi fyrir íbúum að tilkynna öll slík tilvik, því lögreglan tekur mál af þessu tagi mjög alvarlega. Brugðist er strax við slíkum tilkynningum og grennslast fyrir um þau, en síðan er öllum upplýsingum haldið vel til haga til að auðvelda lögreglu að handsama þá sem gerast sekir um slíka hegðun. Stefán benti þó á að þegar lögregla hefur komið á staðinn hafi oft komið í ljós að grunsamleg hegðun hafi átt sér eðlilegar skýringar. Því er brýnt fyrir fólk að halda ró sinni og forðast að skapa óþarfa ótta meðal barna út af þessum málum. Á sama tíma er mikilvægt að vera á varðbergi og kenna börnum rétt viðbrögð, þ.e. að forða sér og láta foreldra vita ef þau telja einhvern ókunnugan vera að lokka sig inn í bíl. Án nokkurrar undantekningar á að tilkynna slík atvik til lögreglu.

Tölfræðina frá Breiðholtsfundinum má nálgast með því að smella hér.