28 Nóvember 2006 12:00
Töluverður árangur hefur náðst í baráttunni gegn innbrotum í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík en þeim hefur fækkað stöðugt frá árinu 2003. Árin 2000-2002 var óheillaþróun í þessum efnum en þá fjölgaði innbrotum um 15% en síðasttalda árið var tilkynnt um meira en tvö þúsund innbrot. Þá var ráðist í markvissar aðgerðir sem skiluðu þeim árangri að innbrotum fækkaði um 15% árið eftir. Síðan hefur verið jákvæð þróun í þessum efnum.
Innbrotum fækkaði um 7% frá 2003-2004 og 12% frá 2004-2005 en síðasttalda árið var tilkynnt um fimmtán hundruð innbrot. Og á fyrstu tíu mánuðum þessa árs hefur innbrotum fækkað um 4% frá fyrra ári. Þrátt fyrir að hér stefni til betri vegar telur lögreglan að enn sé hægt að gera betur. Þá skiptir miklu máli að íbúar láti ekki sitt eftir liggja. Í því sambandi má nefna svokallaða nágrannavörslu. Þá er mikilvægt að verðmæti séu ekki í augnsýn. T.d. er áríðandi að skilja ekki eftir hluti í bílum eða hylja þá ef þess er kostur. Eins þurfa eigendur fyrirtækja að vera meðvitaðir og huga að því sem betur má fara og er til þess fallið að koma í veg fyrir innbrot.