7 Júní 2021 10:45

Lögregla vekur athygli á að umferðarslysum í umdæminu hefur síðustu tvö ár fækkað nokkuð samanborið við fyrri ár. Vonir standa til að sú þróun haldi áfram.

Til mikils er að vinna og hvetur lögregla því ökumenn til að gæta sérstaklega að ökuhraða með hækkandi sól. Hún vekur og athygli á mikilvægi þess að ökutækjum sé vel við haldið og þau skoðuð í samræmi við reglur. Lögregla mun líta eftir skoðunum ökutækja næstu vikur og hvetur eigendur því til að huga að þeim málum þannig að ekki komi til viðurlaga.

Lögregla mun einnig fylgjast með ökuhraða og leggja meðal annars áherslu á eftirlit á þjóðvegi 1 á Hárekstaðaleið annarsvegar og sunnan Djúpavogs hinsvegar. Tölur Vegagerðar frá í fyrra bentu til að ökuhraði á þeim vegarköflum sé á stundum nokkuð mikill og hafi ekki lækkað líkt og hann hefur til að mynda gert á Fagradal.

Gætum að okkur í umferðinni og tryggjum þannig að allir komist heilir heim.