9 Nóvember 2009 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði fram áætlun í ársbyrjun 2007 um fækkun umferðarslysa. Stefnt var að markvissum aðgerðum í samstarfi við samgönguráðuneyti, Vegagerð, Rannsóknarnefnd umferðarslysa, sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og tryggingafélögin. Lögð var áhersla á að fækka hættulegum stöðum og auka sýnilegt eftirlit. Þá var stefnt að auknum gæðum í rannsóknum umferðarslysa.

Samgönguráðuneytið lagði embættinu til fjögur ný bifhjól árið 2007 til þess að efla umferðareftirlit lögreglu og styðja við þá stefnu sem mörkuð var. Önnur fjögur voru afhent á árinu 2008.

Breytingar hafa frá þessum tíma verið framkvæmdar á gatnakerfinu af hálfu Vegagerðar og Reykjavíkurborgar með það að markmiði að fækka slysum. Góð samvinna hefur og verið við tryggingafélög og Umferðarstofu um ráð og lausnir í umferðarmálum og Rannsóknarnefnd umferðaslysa um rannsóknir.

Þegar tölur frá Umferðarstofu eru skoðaðar kemur í ljós að á fyrstu sjö mánuðum áranna 2007 til 2009 hefur umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu fækkað um 34% eða úr 343 slysum árið 2007 í 228 slys á fyrstu sjö mánuðum þessa árs. Sambærilegar tölur frá tryggingafélögunum sýna fækkun slysa úr 874 í 585 eða 33%. [ 1]

Þegar fækkunin er skoðuð til lengri tíma kemur í ljós að slysum fer að fækka seinni hluta árs 2007 og hefur fækkað nánast stöðugt síðan að frátöldum toppum í september 2008 og maí 2009. Ljóst er því að fækkun er byrjuð löngu áður en fyrirkomulagi við afgreiðslu umferðaróhappa var breytt og áður en umferð fór að minnka verulega á höfuðborgarsvæðinu.

Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að markvisst samstarf hagsmunaaðila sem stefna í sömu átt með sömu markmið geti skilað athyglisverðum árangri. Lögreglan mun því halda þeirri stefnu sem mörkuð var fyrir tæplega þremur árum síðan, svo lengi sem þróunin verður til áframhaldandi fækkunar slysa.

[1] Tölur frá tryggingafélaginu Sjóvá, uppfærðar miðað við markaðshlutdeild