17 Nóvember 2012 12:00

Seinni partinn í gær gerði óveður á norðanverðum Vestfjörðum.

Vegfarendur í Ísafjarðardjúpi lentu margir í vandræðum þar sem erfiðlega gekk fyrir starfsmenn Vegagerðarinnar að halda vegum opnum.  Það var síðan sameiginleg ákvörðun Vegagerðarinnar, Snjóflóðavaktar Veðurstofunnar og lögreglustjóra að loka veginum um Súðavíkur og Kirkjubólshlíð sökum snjóflóðahættu.  Í framhaldi þess féllu a.m.k. þrjú lítil flóð úr Súðavíkurhlíð á veginn.   

Björgunarsveitin Kofri í Súðavík, Björgunarfélag Ísafjarðar og Björgunarsveitin Tindar í Hnífsdal unnu í gærkveldi og fram á nótt við að flytja vegfarendur til Súðavíkur þar sem þeir héldu til í nótt.  Aðrir héldu til í Reykjanesi og í Heydal í Ísafjarðardjúpi.

Veður fer batnandi og eru starfsmenn Vegagerðarinnar, Snjóflóðavakt Veðurstofunnar og lögreglan að meta aðstæður m.t.t. opnunar á ný.

Vegfarendur eru hvattir til að fylgjast með fréttum á vef vegagerðarinnar, vegagerd.is og eins er hægt að hringja í upplýsingasíma Vegagerðarinnar, 1777.