7 Febrúar 2003 12:00

Undanfarin ár hafa á þessum árstíma verið á bilinu 60-70 afleysingamenn í fullu starfi í lögreglu, án prófs frá Lögregluskóla ríkisins.  Í desember s.l. útskrifuðust 46 nemar frá Lögregluskólanum og nú eru einungis 20 afleysingamenn við störf, án prófs frá Lögregluskólanum.  Staðan er því þannig nú að allir starfandi lögreglumenn í stærstu lögregluliðum landsins, í Reykjavík,  í Kópavogi, í Hafnarfirði, í Keflavík, á Selfossi og á Akureyri, hafa próf frá Lögregluskóla ríkisins.   Af þeim 20 afleysingamönnum, sem ekki hafa próf frá Lögregluskólanum, og eru nú við störf, starfa 10 á Keflavíkurflugvelli, en hinir hjá 6 lögregluembættum á landsbyggðinni.

Í byrjun janúar á þessu ári hófi 40 nýnemar nám í Lögregluskóla ríkisins sem útskrifast í desember n.k. og því má gera ráð fyrir því að afleysingamenn, án prófs frá Lögregluskólanum, verði enn færri í byrjun árs 2004.   Þó er rétt að hafa í huga í þessu sambandi að vegna lækkunar eftirlaunaldurs lögreglumanna í 65 ár á þessu ári láta a.m.k. 15 lögreglumenn af starfi af þeim sökum á árinu, auk annars brottfalls sem orðið getur, t.d. vegna þess að lögreglumenn hverfi til annarra starfa, starfa við friðargæslu erlendis, fara í launalaus leyfi eða látast svo eitthvað sé nefnt. Endurnýjunarþörf þessi kemur til viðbótar þeim 20 afleysingamönnum sem nú eru við störf.   Gera má ráð fyrir því að á næstu tveimur árum náist sá áfangi að allir lögreglumenn í föstum störfum hafi menntun frá Lögregluskóla ríkisins og þá að afleysingamenn, án prófs frá Lögregluskólanum, verði eingöngu við störf á sumarleyfistíma, nema í undantekningatilvikum.