17 Febrúar 2015 15:00

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir janúarmánuð 2015 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.  

Segja má að árið 2015 hafi farið betur af stað en síðastliðin þrjú ár hvað fjölda afbrota varðar. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 590 tilkynningar um hegningarlagabrot sem áttu sér stað í janúar 2015. Eru það um 11 prósent færri tilkynningar samanborið við sama tímabil síðustu þriggja ára. Tilkynntum þjófnuðum fækkaði einnig, en tilkynnt var um 258 þjófnaði í janúar sem eru um 18 prósent færri tilkynningar en janúarmeðaltal síðastliðna þriggja ára. Að sama skapi bárust Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um níu prósent færri tilkynningar um ofbeldisbrot í janúar 2015 miðað við sama tímabil síðastliðin þrjú ár. Einnig fækkar þeim sem grunaðir voru fyrir akstur undir áhrifum áfengis eða annarra ávana- og fíkniefna.