21 Apríl 2024 16:58

Héraðsdómur Suðurlands hefur fallist á kröfur Lögreglustjórans á Suðurlandi um gæsluvarðhald yfir fjórum sakborningum sem handteknir voru vegna rannsóknar á meintu manndrápi í uppsveitum Árnessýslu í gær. Eins og fram hefur komið var krafan lögð fram fyrr í dag í Héraðsdómi Suðurlands og boðaði dómari til uppkvaðningar úrskurða nú síðdegis.

Tveir aðilanna voru úrskurðaðir til 30. apríl næstkomandi og tveir aðilanna til 24. apríl næstkomandi. Allir voru aðilarnir úrskurðaðir á grundvelli rannsóknarhagsmuna og sæta einangrun.

Rannsókn lögreglu á málinu heldur áfram en engar frekari upplýsingar verða veittar á þessari stundu.