8 September 2010 12:00

Lögreglan mun á næstu vikum leggja sérstaka áherslu á eftirlit með farsímanotkun ökumanna án handfrjálss búnaðar og notkun stefnuljósa. Þá mun lögreglan fylgjast með og gera athugasemdir við þá ökumenn sem ekki eru með tvö skráningarmerki á ökutækjum sínum eins og reglur segja til um eða skráningarmerkin ógreinileg einhverra hluta vegna. Ökumenn geta búist við sektum og að verða boðaðir með ökutæki sín til skoðunar séu þessi atriði ekki í lagi.

Farsímanotkun án handfrjálss búnaðar

Talsvert er um það að ökumenn tali í farsíma við akstur án notkunar handfrjálss búnaðar. Slíkt er óheimilt og til þess fallið að draga athygli frá akstrinum og gerir akstur erfiðari.  Akstur án fullrar athygli og möguleika á að geta brugðist við óvæntum aðstæðum er hættulegur.  Ökumenn eru því hvattir til að tala ekki í farsíma án handfrjálss búnaðar og virða með því rétt annarra vegfarenda til öryggis í umferðinni um leið og þeir gæta að eigin öryggi.  

Stefnuljósanotkun

Notkun stefnuljósa er mikilvægt fyrir öryggi í umferð. Þrátt fyrir það má ítrekað sjá hvar ökumenn skipta um akreinar og fara út úr hringtorgum án þess að gefa stefnuljós svo dæmi séu tekin.  Það skapar óþægindi og öryggisleysi fyrir aðra vegfarendur og hættu. Af þessum sökum hvetur lögreglan ökumenn til að nota stefnuljós ökutækja sinna og stuðla þannig að öruggara umhverfi fyrir alla vegfarendur.

Skráningarmerki

Á bifreiðum skulu skráningarmerki vera bæði að framan og aftan. Þau skulu sýnileg og aðgengileg.  Stöku bifreiðar eru hinsvegar einungis með eitt skráningarmerki . Slíkt er óheimilt. Eigendur þeirra ökutækja, sem svo er ástatt um, eru hvattir til að gera bragarbót á svo ekki þurfi að koma til aðgerða lögreglu.