22 Maí 2015 16:23

Sérsveit ríkislögreglustjóra, í samstarfi við Lögregluskóla ríkisins og Fedreal Bureau of Investigation (FBI) frá Bandaríkjunum, stóð nýlega fyrir námskeiði í fortölum (crisis negotiation).  Þátttakendur komu frá ríkislögreglustjóra og lögregluembættunum á Íslandi sem eru níu talsins.  Námskeiðið er liður í að þjálfa lögreglumenn í samtölum við aðila í erfiðum aðstæðum.  Mikil reynsla er í þessum málaflokki hjá FBI og hafa fulltrúar frá þeim komið áður til landsins og haldið námskeið fyrir lögregluna.  Að þessu sinni komu þrír fulltrúar frá FBI frá þrem fylkjum Bandaríkjanna.  Fulltrúarnir voru mjög ánægðir með nemendur á námskeiðinu og allan aðbúnað í Lögregluskólanum.  Þetta var fyrsta heimsókn þeirra til Íslands og voru þeir ánægðir með móttökurnar og heilluðust af landi og þjóð.

Þátttakendur á námskeiðinu voru á einu máli um mikilvægi svona fræðslu þar sem reglulega koma upp mál hjá lögreglu þar sem reynir á samtöl milli lögreglu og aðila sem eru í erfiðri stöðu.  Af öryggisástæðum er ekki byrt mynd af öllum hópnum en á myndinni eru fulltrúarnir Michel, Shizuko og Jeffery ásamt yfirmanni sérsveitar ríkislögreglustjóra Guðmundi Ómari Þráinssyni.