25 Apríl 2007 12:00

FBI alríkislögregla Bandaríkjanna stóð í síðustu viku fyrir námskeiði fyrir yfirmenn lögreglu á Norðurlöndum. Námskeiðið var haldið í Danmörku.  Á námskeiðinu var farið yfir nútímastjórnunarhætti í lögreglu auk þess sem lögð var áhersla á að auka tengsl lögreglu á Norðurlöndum og lögregluyfirvalda í Bandaríkjunum.  Er þetta í fyrsta sinn sem FBI stendur fyrir námi í Evrópu.  Þremur fulltrúum var boðið frá Íslandi.  Fyrir Íslands hönd tóku þátt Guðmundur Guðjónsson yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, Páll Winkel, yfirmaður stjórnsýslusviðs ríkislögreglustjóra og Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.  Ljóst er að námskeið þetta er mikilvægur liður í að auka samskipti og samvinnu lögregluliða á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum.  Slík samvinna skiptir miklu máli í sífellt alþjóðlegra umhverfi sem nauðsynlegt er að lögregla vinni í.