5 Apríl 2013 12:00

Öryggisverðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar óskuðu eftir aðstoð lögreglunnar á Suðurnesjum í fyrrakvöld vegna einstaklings sem þar væri í annarlegu ástandi og fengi ekki að fara í flug af þeim sökum. Þegar lögreglumenn komu á vettvang reyndist vera um íslenskan karlmann að ræða sem hafði ætlað að bregða sér til sólarlanda , en ekki verið hleypt um borð í flugvélina sökum ástands. Maðurinn var svo ölvaður að hann var verulega valtur á fótunum. Höfðu öryggisverðir sett hann í hjólastól og ferjað hann með þeim hætti út úr brottfararsalnum. Maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem hann var látinn sofa úr sér mestu vímuna áður en lögregla gat rætt við hann.

Á sextugsaldri með hass í farangrinum

Íslenskur karlmaður á sextugsaldri var síðdegis í gær stöðvaður af tollgæslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna gruns um að hann væri með fíkniefni í farangrinum. Lögreglan á Suðurnesjum var kvödd á vettvang. Maðurinn reyndist vera með rúmlega gramm af hassi í pakkningu. Vettvangsskýrsla var gerð um málið og afsalaði maðurinn sér fíkniefnunum til eyðingar. Hann gat hins vegar ekki greitt sektina á vettvangi og óskaði eftir að fá sektargerð senda.

Eftirlýstur á ólöglegri bifreið

Lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af átján ára pilti, sem ók bifreið sinni með ljósabúnað í stakasta ólagi. Í ljós kom að hann var eftirlýstur í öðru lögregluumdæmi, sem var gert viðvart um ferðir hans. Annar ökumaður hafði lagt bifreið sinni á grasbala þegar lögreglu bar að. Kom í ljós að bifreiðin var skráð í akstursbann og fjarlægðu lögreglumenn skráningarnúmer hennar. Þriðji ökumaðurinn, kona rúmlega þrítug kona, ók bifreið sinni svipt ökuréttindum ævilangt. Þá óku fjórir án bílbeltis og tveir virtu ekki stöðvunarskyldu.