2 Nóvember 2007 12:00

Íslensk lögregluyfirvöld hafa í dag, föstudag, synjað 7 norrænum félögum í vélhjólasamtökunum Hell’s Angels um leyfi til landgöngu. Fólkið, sem kom hingað til lands með flugi frá Noregi og Danmörku, hugðist sækja veislu, sem vélhjólaklúbburinn Fafner MC-Iceland hafði boðað til í miðborg Reykjavíkur um helgina. Leiðbeiningarskyldu skv. 25. gr. laga um útlendinga nr. 96, 2002 um heimildir viðkomandi til að leita sér aðstoðar lögmanns hefur verið gætt, en umræddir aðilar hafa til þessa kosið að nýta sér ekki þann rétt.

Aðgerð lögregluyfirvalda vegna komu norrænna félaga í Hell’s Angels hingað til lands er ekki lokið. Fylgst verður með komuflugi til landsins um helgina sem og fyrirhuguðu samkvæmi Fafner-MC Iceland. Embætti ríkislögreglustjóra hefur yfirstjórn aðgerðarinnar, sem er viðamikil. Framkvæmd aðgerðarinnar til þessa hefur verið í höndum lögreglunnar á Suðurnesjum auk þess sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og starfsmenn frá embætti ríkislögreglustjórans taka einnig þátt í henni.