6 Mars 2009 12:00

Tímabundið landamæraeftirlit á innri landamærum Schengen-svæðisins hefur farið fram á Keflavíkurflugvelli í gær og í dag samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra að tillögu ríkislögreglustjóra. Aðildarríki Schengen-samstarfsins grípa til aðgerða af þessu tagi þegar vísbendingar hafa borist um að án þeirra aukist hætta á að vegið sé að öryggi borgara þeirra.

Tilefni þess er koma félaga í Hells Angels og stuðningsklúbbum þeirra til landsins í tengslum við veisluhöld sem íslensku vélhjólasamtökin Fafner MC-Iceland (Fáfnir) hafa boðað til laugardaginn 7. mars 2009 í nýjum höfuðstöðvum sínum í Hafnarfirði.Hells Angels-vélhjólasamtökin og stuðningsklúbbar þeirra halda uppi skipulagðri glæpastarfsemi víða um lönd. Samtökin falla undir þá skilgreiningu sem í gildi er innan Evrópusambandsins (ESB) um skipulagða glæpastarfsemi. Félagar í samtökunum hafa víða hlotið þunga dóma m.a. fyrir morð og fíkniefnasmygl.Síðdegis í dag, föstudag, höfðu alls 12 félagar í vélhjólasamtökunum Hells Angels og stuðningsklúbbum þeirra verið stöðvaðir við komu þeirra til Keflavíkurflugvallar. Mönnunum var meinuð landganga. Sex þeirra hafa farið úr landi. Á miðvikudag var tveimur félagsmönnum Hells Angels meinuð landganga og héldu þeir aftur til síns heima daginn eftir.Miðað er við að hið tímabundna landamæraeftirlit á innri landamærum Schengen-svæðisins valdi sem minnstri röskun fyrir almenna ferðamenn. Landamæraeftirlitinu verður framhaldið á morgun.