3 Desember 2002 12:00

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002 fór fram orðuveitingarathöfn á vegum alþjóðalögregluliðs Sameinuðu þjóðanna í Pristina í Kosovo. Að þessu sinni var verið að veita íslenskum og dönskum lögreglumönnum þjónustuorðu fyrir þátttöku í starfi alþjóðalögregluliðsins. Viðstaddir athöfnina voru einnig íslenskir flugumferðarstjórar sem nýlega hófu störf í Kosovo.

Í Kosovo hafa frá árinu 1999 starfað að jafnaði tveir íslenskir lögreglumenn sem þátttakendur á vegum utanríkisráðuneytisins í friðargæslustörfum. Þar hafa undanfarið starfað þeir Ásgeir Þór Ásgeirsson og Hrafn Grétarsson. Ásgeir Þór hefur gegn starfi yfirmanns allra sérsveita alþjóðalögregluliðsins og Hrafn starfar í einni af öryggisgæslusveitum sérsveitanna.

Af þessu tilefni fóru Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri og Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn í heimsókn til alþjóðalögregluliðsins. Tilgangur ferðarinnar var einnig að kynna sér störf íslenskra lögreglumanna, alþjóðalögregluliðsins og ástand mála.

Ríkislögreglustjóri átti m.a. fundi með lögreglustjóra og varalögreglustjóra alþjóðalögregluliðsins. Þá kynnti hann sér margvíslega starfsemi þess bæði þar sem íslenskir lögreglumenn hafa starfað og eins aðra starfsemi lögregluliðsins svo sem rannsóknardeildar sem rannsakar stríðsglæpi og starfsemi sérsveitanna. Þá var farið á svæðisbundna lögreglustöð í bænum Mitrovica og einnig til rúmenskrar Jandarmeriei sérsveitar.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, Thom Hacker, varalögreglustjóri, Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, Stefan Feller, lögreglustjóri alþjóðalögregluliðsins, Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn, Hrafn Grétarsson.

Að athöfninni lokinni var þátttakendum og gestum boðið upp á veitingar.

Ríkislögreglustjóri ásamt íslenskum lögreglumönnum og flugumferðarstjórum.

Frá heimsókn til rúmensku Jandarmeriei sveitarinnar.