8 Mars 2013 12:00

Lögreglan á Suðurnesjum hefur á undanförnum dögum handtekið þrjá ökumenn vegna gruns um að þeir ækju undir áhrifum fíkniefna. Einn þeirra ók á grindverk sem aðskilur akbrautir á Njarðvíkurbraut. Tætlur úr grindverkinu lágu í grasinu, þegar að var komið, ásamt braki úr bílnum. Ökumaðurinn, karlmaður á þrítugsaldri,  játaði neyslu á kannabis, en sýnatökur á lögreglustöð staðfestu að hann hafði einnig neytt kókaíns.

Þá voru tvær konur handteknar vegna gruns um fíkniefnaakstur. Sýnatökur staðfestu að önnur þeirra hafði neytt kannabisefna. Hin neitaði að láta sýni í té og var hún svipt ökuréttindum til bráðabirgða vegna gruns um fíkniefnaakstur. Hún hafði áður gerst brotleg í þeim efnum.