5 Mars 2011 12:00

Í gærmorgun, þann 4. þ.m.,  fann lögreglan á Vestfjörðum tæp 70 grömm af kannabisefnum.  Efnið fannst við húsleit sem lögreglan framkvæmdi í húsi einu á Ísafirði.  Ungur maður var handtekinn í þágu rannsóknar málsins.  Hann hefur viðurkennt að hafa átt efnið og ætlað það til dreifingar á svæðinu.  Manninum var sleppt að yfirheyrslum loknum í gærkveldi, enda telst málið upplýst.  Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglunnar vegna fíkniefnamála.  Fíkniefnaleitarhundurinn á Vestfjörðum, Dollar, var notaður við fíkniefnaleitina.

Lögreglan hvetur alla þá sem búa yfir upplýsingum eða grunsemdum um fíkniefnameðhöndlun um að koma þeim á framfæri.  Það er hægt að gera í síma 450 3730 (upplýsingasími lögreglunnar á Vestfjörðum) eða í síma 800 5005 (talhólf lögreglu og tollgæslu á landsvísu varðandi fíkniefnaupplýsingar).  Fullrar nafnleyndar er heitið.