9 Október 2003 12:00
Framhald af fréttatilkynningu frá lögreglunni á Ísafirði frá 8. okt. sl.
Eins og fram kom í áðurnefndri fréttatilkynningu þá framkvæmdi lögreglan á Ísafirði húsleitir á tveimur stöðum á Ísafirði að kveldi 7. þ.m., að fengnum úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða. Á sama tíma voru þrír karlmenn á aldrinum frá 20 til 24 ára handteknir. Fjórði karlmaðurinn, á þrítugsaldri, var handtekinn á svipuðum tíma og hinir fjórir, en hann viðurkenndi að hafa keypt hass af einum þremenninganna. Honum var sleppt fljótlega.
Lögreglan á Ísafirði sleppti þremenningunum seint í gærkveldi úr haldi, en þeir höfðu verið yfirheyrðir, ásamt nokkrum einstaklingum öðrum vegna málsins undanfarinn sólarhring.
Lögreglan á Ísafirði telur sig hafa upplýst um flutning á um 100 grömmum af hassi til Ísafjarðar fyrir tæpum tveimur vikum síðan þar sem einn þremenninganna ásamt öðrum aðila fóru í sólarhrings ferð til Reykjavíkur til að sækja umrædd fíkniefni. Þá hefur verið upplýst að umræddum fíkniefnum hafi verið dreift á Ísafirði og nágrenni undanfarnar tvær vikur. Þremenningarnir umræddu hafa allir viðurkennt aðild sína að meðhöndlun og dreifingu þessara efna. Við húsleitirnar tvær þann 7. sl. fann lögreglan það sem eftir var af umræddri fíkniefnasendingu, eða um 10 grömm af hassi. Þá lagði lögreglan hald á um 100.000.- krónur í peningaseðlum sem grunur leikur á að sé söluandvirði hluta fíkniefnanna.
Nokkrir ætlaðir fíkniefnakaupendur hafa verið yfirheyrðir í tengslum við málið og mun lögreglan halda því áfram næstu daga. Þetta er fólk á aldrinum frá sautján ára og til þrítugs.
Nokkrir einstaklingar í Bolungarvík tengdust málinu og naut lögreglan á Ísafirði aðstoðar lögreglunnar þar við rannsókn málsins.
Lögreglan á Ísafirði vill hvetja almenning til að vera vel á varðbergi gagnvart hugsanlegum tilraunum til fíkniefnaflutnings til svæðisins. Flutningsleiðir eru með ýmsum hætti s.s. að sækja fíkniefni til Reykjavíkur á einkabifreiðum, með stuttri viðkomu þangað, jafnvel yfir nótt. Eða að aka áleiðis umrædda leið, á móti söluaðila. Þá er almenningur beðinn að vera á varðbergi gagnvart grunsamlegum mannaferðum í nágrenni við þéttbýlisstaðina, en oft eru fíkniefni falin á víðavangi og litlir skamtar sóttir af og til á þann felustað. Þá eru flugfarþegar varaðir að taka ekki að sér að flytja pakka fyrir ókunnuga, en slíkt gæti innihaldið fíkniefni.