2 Apríl 2014 12:00

Lögreglunni á Vestfjörðum hefur bæst liðsauki. En í dag lét ríkislögreglustjóraembættið lögreglunni á Vestfjörðum í té fíkniefnaleitarhund sem mun verða staðsettur á Ísafirði og þjónusta allt umdæmið. Hundurinn er af labradorkyni og ber nafnið Tindur. Hann hefur hlotið þjálfun hjá Steinari Gunnarssyni, yfirhundaþjálfara hjá ríkislögreglustjóraembættinu. Þórir Guðmundsson, lögreglumaður mun hafa hundinn í sinni umsjá og viðhalda þjálfun hans.

Fíkniefnaleitarhundur hefur ekki verið á Vestfjörðum frá því í nóvember 2011. En þá skilaði embætti lögreglustjórans á Vestfjörðum fíkniefnaleitarhundinum Dollar til ríkislögreglustjóraembættisins. Ástæðan var fjárskortur vegna niðurskurðarkrafna fjárveitingavaldsins. Nú sér embætti lögreglustjórans á Vestfjörðum fram á bjartari tíma og óskaði því eftir því að fá aftur í þjónustu sína fíkniefnaleitarhund.

Gaman er að geta þess að Tindur er sonur þess fíkniefnaleitarhunds sem áður var í þjónustu lögreglunnar á Vestfjörðum. Sá hundur bar heitið Dollar og hafði Jón Bjarni Geirsson, aðalvarðstjóri, yfirumsjón með þeim hundi.

Með tilkomu Tinds sjá lögreglumenn á Vestfjörðum fram á mikla möguleika á auknu og markvissu fíkniefnaeftirliti í öllu umdæminu.

Þórir Guðmundsson lögreglumaður, Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn, Steinar Gunnarsson yfirhundaþjálfari hjá ríkislögreglustjóraembættinu með fíkniefnaleitarhundinn Tind.