7 Apríl 2008 12:00

Fréttatilkynning frá lögreglustjóranum á Seyðisfirði

Í dag, mánudaginn 7. apríl kl.14.00, fór fram á lögreglustöðinni á Egilsstöðum formleg afhending frá yfirhundaþjálfara ríkislögreglustjórans á fíkniefnaleitarhundinum Codie til embættis lögreglustjórans á Seyðisfirði. Hundurinn hefur verið grunnþjálfaður og er nú tímabært að embættið taki við honum til áframhaldandi þjálfunar hunds og hundamanns. Kaup á hundinum voru fjármögnuð með gjafafé.

Margir hafa komið að því að gera mögulegt að kaupa og halda fíkniefnaleitarhundinn og kann embættið þeim bestu þakkir. Má í því sambandi nefna dómsmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, ríkislögreglustjórann, Tollstjórann í Reykjavík og embætti lögreglustjórans á Eskifirði, Frímúrararegluna á Íslandi, Lionshreyfinguna á Íslandi, Landsvirkjun og Fljótsdalshérað.  

Hundurinn verður notaður jöfnum höndum í þágu lög- og tollgæslu í baráttunni gegn meðferð, sölu og innflutningi á fíkniefnum.

Seyðisfirði,  7. apríl 2008

Lögreglustjórinn á Seyðisfirði,

Lárus Bjarnason