16 Desember 2002 12:00

  Þrjú fíkniefnamál komu upp í Vestmannaeyjum um helgina.

  Í gærkvöldi fann lögreglan í Vestmannaeyjum með fíkniefnahundinn Tönju sér til aðstoðar, 42 grömm af hassi og áhöld til neyslu og pökkunar á fíkniefnum við húsleit í bænum.  Húsráðandinn var handtekinn og færður í fangageymsu.  Í framhaldinu voru tveir aðrir handteknir og farið til húsleitar hjá öðrum þeirra.  Á heimili hans fundust áhöld til neyslu fíkniefna.  Fólkið sem handtekið var er allt á þrítugsaldri, tveir karlmenn og kona.  Konunni var sleppt eftir yfirheyrslu, en karlmennirnir sitja enn í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

  Skömmu eftir að rannsókn fyrrgreinds máls hófst kom tæplega tvítugur maður akandi að þar sem lögreglumenn unnu við húsleitina.  Við athugun kom í ljós að maður þessi virtist ekki vera í standi til aksturs ökutækis og var hann handtekinn fyrir að stjórna ökutæki undir áhrifum örvandi eða deyfandi efna.  Þá eru tengsl hans við fyrrnefnt mál einnig í rannsókn.

  Á laugardag var tilkynnt um eld við bílskúr í bænum og voru slökkviliðsmenn í viðbragðsstöðu en lögreglumaður sem kom fyrstur á staðinn hitti þar fyrir tæplega tvítugan mann sem hafði kveikt eld fyrir utan bílskúrinn.  Ekki reyndist þörf á slökkviliði, en lögreglumaðurinn fann á staðnum lítilræði af hassi og áhöld til fíkniefnaneyslu.