30 Desember 2009 12:00

Við reglubundið eftirlit með komu Herjólfs í gærkvöldi hafði lögreglan afskipti af ökumanni bifreiðar og farþega hennar vegna gruns um fíkniefnamisferli. Bifreiðin var færð á lögreglustöðina þar sem eigandi hennar sem jafnframt var ökumaður hennar samþykkti leit í henni. Þegar fíkniefnahundurinn Luna var að leita í bifreiðinni tók ökumaður bifreiðarinnar til fótanna og hljóp frá lögreglustöðinni. Lögreglumenn veittu honum eftirför og fengu meðal annars aðstoð frá ökumanni  bifreiðar sem átti þar leið hjá. Lögreglumenn sáu hvar aðili þessi sem þeir voru að elta henti frá sér pakka á leiðinni. Hann var síðan hlaupinn uppi eftir að hafa veitt honum eftirför austur Faxastíg og niður á Vestmannabraut þar sem hann var handtekinn og færður á lögreglustöðina. Í pakkanum sem hann hafði hent frá sér reyndust vera 40 til 50 grömm af ætluðu kókaíni. Hann viðurkenndi við skýrslutöku að eiga efnin og hafa ætlað þau til sölu hér í Vestmannaeyjum. Farþegi sem í bifreiðinni var neitaði allri aðild að málinu. Áætlað söluandvirði efnisins er milli áttahundruð þúsund til ein miljón króna.

Ökumaðurinn er jafnframt grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Ökumaður og farþeginn voru færðir í fangageymslu vegna rannsóknar á málinu en þeir eru báðir á þrítugsaldri. Skýrslutökum verður framhaldið í dag.