1 Janúar 2006 12:00

Að kvöldi gamlársdags var í Vestmannaeyjum maður á fimmtugsaldri úrskurðaður í viku gæsluvarðhald fyrir meinta fíkniefnadreifingu.

Forsaga málsins var sú að á morgni gamlársdags voru þrjár konur og einn karl handtekin vegna meints fíkniefnabrota.  Aðilar þessir eru öll á þrítugs og fertugsaldri og fannst smáræði af hassi í fórum þeirra.  Við leit á heimilum kvennanna og bifreið fannst töluvert magn til viðbótar, alls um 100 grömm af hassi og eitthvað af amfetamíni.  Manninum var sleppt eftir yfirheyrslur, en ekkert fannst í fórum hans.  Við yfirheyrslur játaði ein konan umtalsverða sölu á fíkniefnum og var í framhaldinu maður á fimmtugsaldri handtekinn og við leit lögreglu í tveimur húsum fundust tæplega 100 grömm af hassi til viðbótar og tæplega milljón í peningum, bæði íslenskum krónum og dollurum.  Játaði maðurinn eign á efninu en neitaði sölu.

Það var svo seint í gærkveldi að maðurinn var úrskurðaður í sjö daga gæsluvarðhald í Héraðsdómi Suðurlands, en konunum var sleppt eftir yfirheyrslur.

Rannsókn málsins heldur áfram og beinist að því að upplýsa ætlaða sölu á fíkniefnum í Vestmannaeyjum undanfarna mánuði.