19 Febrúar 2006 12:00

Tveir menn eru í haldi lögreglunnar á Ísafirði vegna rannsóknar á meintri fíkniefnadreifingu.  Mennirnir voru handteknir um kl.10:00 í gærmorgun (18. febrúar) í Ísafjarðardjúpi, en þeir voru þá að koma akandi áleiðis til Ísafjarðarbæjar.  Lögregluna grunaði að för mannanna tengdist fíkniefamisferli og við leit í bifreiðinni fundust fíkniefni, n.t.t. hass, allt  í sölueiningum.  Á þessu stigi mun magn efnisins ekki verða gefið upp.  Báðir hafa menn þessir komið áður við sögu lögreglunnar vegna fíkniefnamála.

Lögreglustjórinn á Ísafirði hefur lagt fram kröfu um gæsluvarðhald vegna beggja mannanna, fyrir Héraðsdómi Vestfjarða.

Lögreglan á Ísafirði naut aðstoðar lögreglunnar á Hólmavík vegna máls þessa.

Gefin verður út nánari fréttatilkynning vegna þessa máls síðar.